Innlent

Ofsakláði og útbrot eftir baðferð

Á undanförnum tveimur árum hafa tugir Íslendinga sýkst af sundmannakláða af völdum fuglablóðagða eftir að hafa baðað sig eða vaðið berum fótum út í Botnsvatn ofan Húsavíkur. Einkenni sjúkdómsins eru útbrot og ofsakláði en rannsóknir gefa tilefni til að ætla að ein tegund fuglablóðagða, nasablóðagða, geti einnig valdið skemmdum á taugakerfi spenndýra, þar á meðal manna. Heilbrigðisyfirvöld á Húsavík settu upp skilti við Botnsvatn í fyrra þar sem fólk var varað við að fara út í vatnið en ekki tóku allir varnaðarorðin alvarlega og sumir þurftu að leita læknisaðstoðar. Fuglablóðögður á fullorðinsstigi finnast sem snýkjudýr, ormar, í fuglum og berast með þeim í vötn og tjarnir. Ormarnir sleppa eggjum í vatnið og úr þeim skríða lirfur sem bora sig inn í vatnabobba þar sem fjöldi lirfanna margfaldast með kynlausri æxlun. Síðla sumars fara lirfurnar úr vatnabobbunum og synda í leit að sundfitum fugla og ljúka hringferlinum í fuglunum sem ormar. Í nýrri rannsókn dr. Karls Skírnissonar, dýrafræðings á Keldum, og starfsfólks Náttúrustofu Norðausturlands kom í ljós að sýktum vatnabobbum í Botnsvatni hefur fjölgað mjög mikið frá því í fyrra. "Svo mikið er af lirfum fuglablóðagða í Botnsvatni að þær geta valdið hundruðum bóla og útbrota á mannslíkama," segir Karl. Ónæmiskerfi mannslíkamans ræðst á lirfurnar í húðinni og útbrotin og ofsakláðinn eru einkenni þess að líkaminn sé að skila frá sér dauðum lirfum. "Að minnsta kosti fimm tegundir fuglablóðagða eru þekktar hér á landi en við vitum ekki hvaða tegundir eru í Botnsvatni. Nasablóðagðan er hættulegust en sýnt hefur verið fram á í tilraunum að hún getur lifað í spendýrum þar sem hún fer eftir taugakerfinu og getur valdið þar skaða," segir Karl. Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, segir að nokkrir einstaklingar hafi smitast af sundmannakláða í Botnsvatni í sumar, þrátt fyrir varnaðarorð þar um. "Að minnsta kosti einn þurfti að leita sér læknisaðstoðar en í fyrra fóru margir út í Botnsvatn og þá skipti fjöldi sýktra tugum," segir Þorkell.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×