Erlent

Hryðjuverkamanna leitað stíft

Írakski herinn gerir nú hverja árásina af annarri á stöðvar hryðjuverkamanna. Það er þó ekkert lát á sprengjutilræðum í borgum landsins. Írakskar hersveitir réðust inn í mörg hús í norðurhluta Bagdad eldsnemma í morgun í leit að vopnum og hryðjuverkamönnum. Að minnsta kosti tíu menn voru handteknir. Tvær vikur eru nú liðnar síðan herinn hóf gagnárásir á hryðjuverkamenn sem beint svar við sprengjuárásunum sem hafa kostað hundruð manna lífið síðan ný ríkisstjórn tók við völdum í landinu 28. apríl síðastliðinn. Alls hafa yfir þrettán hundruð menn verið handteknir síðan gagnárásir hersins hófust. Það virðist þó aðeins vera dropi í hafið því ekkert lát er á sprengju- og skotárásum. Að minnsta kosti tólf létu lífið og margir tugir særðust í slíkum árásum í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×