Lífið

Ray Charles með átta Grammy

Ray Charles vann átta verðlaun á Grammy-tónlistarhátíðinni sem var haldin í 47. sinn í Los Angeles í fyrrinótt. Charles, sem lést síðasta sumar 73 ára gamall, vann verðlaunin fyrir sína síðustu plötu, Genius Loves Company. Meðal annars fékk hann verðlaun fyrir bestu plötu ársins, bestu poppplötuna auk þess sem dúett hans með Noruh Jones, Here We Go Again, var verðlaunaður. "Mig langar til að gráta," sagði Jones þegar hún tók á móti verðlaununum fyrir dúettinn. "Ég held að þetta sýni hversu yndisleg tónlist getur verið. Hún nær 100% með Ray Charles." Alicia Keys vann fern verðlaun þar á meðal fyrir bestu R&B plötuna, The Diary of Alicia Keys, og fyrir besta R&B lagið, You Don´t Know My Name. Hljómsveitin Green Day, sem var tilnefnd til sex verðlauna, vann fyrir bestu rokkplötuna en hún nefnist American Idiot. Írska sveitin U2 vann þrenn verðlaun fyrir lag sitt Vertigo af nýjustu plötu sinni How to Dismantle an Atomic Bomb. Var það meðal annars valið besta rokklagið. Trommarinn Larry Mullen Jr. viðurkenndi mistök sem áttu sér stað vegna miðasölu fyrir nýjustu tónleikaferð sveitarinnar. "Vegna aðstæðna sem við réðum ekki við þurftu aðdáendur okkar að bíða í biðröð heila nótt og fengu enga miða," sagði hann. "Ég vil nýta þetta tækifæri og biðjast afsökunar fyrir hönd hljómsveitarinnar." Britney Spears vann Grammy fyrir besta danslagið, Toxic, en Emiliana Torrina var tilnefnd fyrir lagið Slow sem Kylie Minogue flutti. Hljómsveitin Wilco vann fyrir bestu framsæknu plötuna, A Ghost Is Born, og bar hún þar m.a. sigurorð af Björk sem var tilnefnd fyrir plötuna Medulla.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.