Innlent

Skotlandsbanki dregur í land varðandi KB banka

KB banki þarf fyrst og fremst að bæta upplýsingagjöf sína, segir yfirgreinir Skotlandsbanka. Mjög hefur verið dregið í land í nýrri greiningu skoska bankans á KB. Stjórnarformaður KB segir vinnubrögð Skotanna fyrir neðan allar hellur, en hefur þó engar áhyggjur.

Fyrri greining Skotlandsbanka, Royal Bank of Scotland, var mjög harðorð í garð KB-banka. En eftir athugasemdir frá KB-mönnum kom ný greining, þar sem töluvert var dregið í land. Fréttastofa ræddi í dag við höfundinn, Tom Jenkins, yfirgreinanda eða „senior analyst", hjá Skotlandsbanka, sem viðurkennir að full fast hafi verið að orði kveðið í fyrra greiningunni. Þrjár af sex megin athugasemdum hafi verið dregnar til baka eftir útskýringar KB. Þrjár standa hins vegar enn, segir Jenkins, en áréttar að Skotlandsbanki sé í rónni út af öllum þessum atriðum, þótt áfram þurfi að fylgjast með. KB banki nýtur afar mikils traust, segir Tom, og fær í sífellu hæstu einkunn hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka, segir stjórnendur bankans vera afslappaða yfir þessu þó vissulega sé slæmt að banki eins og Royal Bank of Scotland setji fram greiningu þar sem mikið sé af staðreyndavitleysum. Þetta sé þó ekkert til að hafa áhyggjur af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×