Innlent

Lettar í vinnu án leyfa

"Þetta er mjög einfalt mál. Þetta er frjálst flæði þjónustu frá Lettlandi til Íslands sem er löglegt samkvæmt samningi sem var undirritaður 1. maí árið 2004 og Lettland varð hluti af Evrópusambandinu. Við viljum auðvitað að löggjafi skeri úr um hvað er rétt og hvað er rangt í þessum máli en við teljum okkur vera réttum megin við lögin," segir Ragnar Þórðarson, talsmaður GT-verktaka. GT-verktakar hafa haft fjóra lettneska starfsmenn í vinnu við Kárahnjúka án tilskilinna atvinnuleyfa frá Vinnumálastofnun eða dvalarleyfa frá Útlendingastofnun. Vinnumálastofnun hefur kært þetta athæfi til sýslumannsins á Seyðisfirði. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að ráðning Lettanna sé ólögleg. "Þegar stækkunarsamningurinn var samþykktur 1. maí á síðasta ári voru settar aðgangstakmarkanir á Íslandi til að minnsta kosti tveggja ára. Í því felst að fyrirtæki eða einstaklingar þurfa að sækja um atvinnuleyfi vegna hefðbundinna starfa og störf Lettanna falla undir þessi störf. Einnig þarf að sækja um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun en GT-verktakar hafa hvorugt gert. Það sem okkur gremst mjög er að þetta tiltekna fyrirtæki rekur Íslendinga til að ráða útlendinga en við höfum barist verulega gegn því," segir Gissur. Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður verkalýðshreyfingarinnar við Kárahnjúka, vill að hart verði tekið á þessu máli enda kolólöglegt að hans mati. "Ég veit að þeir sem vinna við Kárahnjúkavirkjun eru að öllu leyti með sín plögg í lagi, hvort sem það eru atvinnuleyfi eða dvalarleyfi. Þetta fyrirtæki kemur með starfsmenn á öðrum forsendum og lætur þá vinna sem er kolólöglegt," segir Oddur sem hræðist ekki aukningu slíkra mála á Kárahnjúkum. "Það kemur auðvitað upp ný staða ef GT-verktakar kemst upp með þetta en ég trúi ekki að þetta mál gangi í gegn. Þetta vandamál er samt til staðar um allt land. Þetta er leikurinn sem verktakar leika."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×