Innlent

Efast um að nefnd vilji fá tilboð

Talsmenn félagsins Almennings, sem stefnir að kaupum á Landssímanum, fengu engin svör á stuttum fundi í dag með starfsmönnum einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. Agnes Bragadóttir, talsmaður félagsins, stórefast um að einkavæðingarnefnd vilji fá tilboð frá félaginu. Þau Agnes Bragadóttir og Orri Vigfússon mættu til fundar í viðskiptaráðuneytinu í morgun með hátt í 900 umboð frá einstaklingum til að óska eftir gögnum sem fjármálafyrirtækið Morgan og Stanley hefur gert, en án þeirra telja þau ekki unnt að bjóða í Símann. Agnes segist óhress með samskipti við einkavæðingarnefnd. Hún segir að félagið hafi átt mjög erfitt með að ná samband við nefndina og koma á fundi. Það hafi verið reynt mjög stíft en nefndarmenn verði að svara því hvers vegna þeir vilji ekki tala við þau. Aðspurð hvort nefndin vilji kannski ekki fá tilboð frá Almenningi segist Agnes draga það stórlega í efa að nefndin sé mjög spennt fyrir því að fá tilboð frá félaginu. Ekki fengu þau fund með einkavæðingarnefnd í dag, hittu aðeins tvo starfsmenn nefndarinnar sem að sögn Agnesar tóku á mótu gögnunum og hlýddu á málflutning þeirra. Fengust þær upplýsingar að næsti fundur einkavæðingarnefndar yrði á miðvikudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×