Innlent

Ætla að tvöfalda íbúafjöldann

Tvö möguleg nöfn hafa verið nefnd á sveitarfélagið. Annað er Sveitarfélagið Vogar en hitt Vatnsleysustrandarbær.
Tvö möguleg nöfn hafa verið nefnd á sveitarfélagið. Annað er Sveitarfélagið Vogar en hitt Vatnsleysustrandarbær. MYND/Annþór
Hreppsstjórn Vatnsleysustrandar stefnir að því að tvöfalda íbúafjöldann á næstu fimm árum. Gangi það eftir verða íbúarnir orðnir tvöþúsund við lok þessa áratugar, hátt í þrefalt fleiri en þeir voru um miðbik síðasta áratugar.

Íbúar Vatnsleysustrandarhrepps eru orðnir þúsund talsins og hefur fjölgað um tæp 40 prósent á sex árum. Þar með er ljóst að markmiðið sem hreppsstjórnin setti sér árið 1999 um að fjölga íbúum um 40 prósent hefur náðst. Heimamenn ætla þó ekki að láta staðar numið. Jón Gunnarsson oddviti hreppsstjórnar segir markmiðið að fjölga íbúum ennfrekar en gert hefur verið á síðustu árum. Viðbúið er að íbúarnir verði orðnir 1.300 næsta sumar, miðað við það húsnæði sem er nú verið að byggja og því er stefnt að því að þeir verði um 2.000 talsins eftir fimm ár, segir Jón Gunnarsson oddviti.

Þetta er ekki eina breytingin sem er framundan í Vatnsleysuhreppi því nú á að breyta Vatnsleysu og Vogum úr hreppi í sveitarfélag samhliða því að íbúafjöldinn fyrir yfir eitt þúsund. Jón segir breytinguna úr hreppi í bæ þó ekki eiga að hafa mikil áhrif á íbúana utan þess að sett verði á fót bæjarráð sem fundi oftar en hreppsstjórn hefur gert til þessa. Því geti íbúar átt von á því að skemmri tíma taki að bregðast við málum sem berast bæjarstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×