Innlent

Mikill stuðningur við rétt til tæknifjóvgunar

Mikil jákvæðni. Mikill meirihluti Íslendinga er fylgjandi því að lesbíur í sambúð eigi þess kost að eignast börn með tæknifjóvgun.
Mikil jákvæðni. Mikill meirihluti Íslendinga er fylgjandi því að lesbíur í sambúð eigi þess kost að eignast börn með tæknifjóvgun.

82,3 prósent Íslendinga segja að það eigi að heimila samkynhneigðum konum í sambúð að eignast börn með því að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði. 17,7 prósent þeirra sem tóku afstöðu, voru því andvíg.

Fyrir helgi kynnti ríkisstjórnin nýtt frumvarp til laga sem bæta á réttarstöðu samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigða. Í frumvarpinu felst meðal annars að samkynhneigðir geti fengið óvígða sambúð skráða í þjóðskrá, að samkynhneigðum verði heimilt að ættleiða börn og að kona, í staðfestri samvist með annari konu, hefur rétt til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði líkt og gagnkynhneigð pör.

Nokkur munur er á afstöðu karla og kvenna í skoðanakönnun Fréttablaðsins. Konur voru heldur jákvæðari gagnvart því að lesbíur í staðfestri samvist hefðu rétt á að gangast undir tæknifrjóvgun, og töldu 85,6 prósent þeirra að slíkt ætti að heimila.

14,4 prósent ­kvenna­ voru því andvígar. Hins vegar töldu 79 prósent karla að slíkt ætti að leyfa, en 21 prósent karla voru því andvígir. Þá var einnig munur á afstöðu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa á landsbyggðinni.

Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu voru frekar jákvæðari gagnvart því að heimila lesbíum í sambúð að gangast undir tæknifrjóvgun, eða 86,1 prósent. 13,9 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins voru því andvíg. 77,0 prósent íbúa landsbyggðarinnar vildu heimila lesbíum þennan rétt, en 23 prósent voru því andvíg.

Hringt var í 800 manns 19. nóvember, og skiptust svarendur jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Á að heimila lesbíu í sambúð að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði? 88,5 prósent þeirra sem spurðir voru tóku afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×