Innlent

Með rafrænan sjónvarpsvísi

Fjarskiptafyrirtækið Hive ætlar að vera með vikulegan rafrænan dagskrárvísi í tengslum við sjónvarpsútsendingar sínar sem hefjast á netinu í vor. Dagskrárvísirinn verður unninn í samstarfi við tölvufyrirtæki og hafa þegar átt sér stað viðræður við ýmsa, til dæmis EJS og Tölvudreifingu. "Hluti af því að vera með góða framsetningu er að vera með rafrænan dagskrárvísi sem fólk getur haft inni á tölvunni sinni. Þar kemur fram dagskrá vikunnar og fólk getur fengið yfirlit yfir þætti. Þetta er hlutur sem við erum að íhuga hvernig við leysum og vonandi í samstarfi við aðra aðila sem eru á markaðnum," segir Arnþór Halldórsson, framkvæmdastjóri Hive. Ekki er gert ráð fyrir að rafræni dagskrárvísirinn heiti neitt sérstakt. Í hann verður safnað upplýsingum um dagskrárliði, hvenær þættir hefjast og hvenær þeim lýkur, efnistök og bakgrunnsefni af ýmsu tagi. "Þetta er nauðsynleg forsenda þess að tæknin virki eins og henni er ætlað," segir Arnþór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×