Viðskipti erlent

Netverslun sækir í sig veðrið

Í fréttabréfi KB banka kemur fram að vinsældir netverslunar hafa aukist jafnt og þétt í Bandaríkjunum á síðastliðnum árum, m.a. vegna þess að bandarískir neytendur eru nú viljugri en áður til þess að gefa upp ýmsar upplýsingar er lúta að fjármálum á netinu, eins og t.d. kreditkortanúmer. Til netverslunar flokkast kaup og sala sem eiga sér stað um netið, að flugmiðum og fjármálaþjónustu undanskilinni. Smásala á veraldarvefnum jókst um 7,2% á öðrum ársfjórðungi í Bandaríkjunum miðað við sama tímabil í fyrra. Um er að ræða mestu ársfjórðungsaukningu síðan á öðrum ársfjórðungi 2002. Kaup á smásöluvarningi á öðrum ársfjórðungi í gegnum vefsíður, tölvupóst eða önnur vefkerfi námu alls 21,15 milljónum Bandaríkjadala ef leiðrétt er fyrir árstíðasveiflum. Smásala um netið nemur nú 2,2% af heildarsmásölu í Bandaríkjunum. Heildarsmásala í Bandaríkjunum jókst um 2,6% á öðrum ársfjórðungi og nam alls 940,75 mö.USD.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×