Innlent

Jón leggur í langsund

Jón S. von Tetzchner, íslenskur forstjóri norska vafrafyrirtækisins Opera Software, sagðist á vinnufundi í fyrirtækinu ætla að synda frá Noregi til Bandaríkjana ef fleiri en milljón hlaða niður nýjustu útgáfu vafrans sem út kom á þriðjudag á fyrstu fjórum dögunum. "Ég skal ekki stoppa nema aðeins hjá mömmu á Íslandi til að fá mér heitt kakó," sagði hann, en almannatenglsadeildin gat ekki setið á sér að leka orðum hans. Mikið álag var á miðlurum fyrirtækisins eftir að útgáfa 8 af Opera vafranum var gerð aðgengileg og tóku sumir undan að láta þegar niðurhalsfjöldinn náði 120 á sekúndu fyrstu klukkustundina eftir útgáfu. Fyrirtækið segir að á tveimur sólarhringum hafi vafranum verið hlaðið niður 600 þúsund sinnum. "Við höfðum búið okkur undir mikil og góð viðbrögð, en þetta fór fram úr okkar björtustu vonum," sagði Carsten Fischer, einn yfirmanna Opera Software. Vefur Opera Software er www.opera.com, en hægt er að hlaða vafranum niður af miðlurum hér innanlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×