Erlent

Upptaka af morði á borgurum

Hryðjuverkamenn í Írak sendu í dag frá sér upptöku þar sem sjá má þyrlu með óbreyttum borgurum skotna niður. Blóðugar árásir kostuðu á annan tug lífið í Írak í dag. Bílsprengja kostaði tíu lífið við mosku sjíta í Bagdad í dag en sautján særðust í árásinni. Sprengingin varð á meðan föstudagsbæn stóð og var hún svo öflug að hluti moskunnar hrundi. Árásir á sjíta eru orðnar daglegt brauð í Írak og kenndi harðlínuklerkurinn, Muqtada al-Sadr, í dag íröksku ríkisstjórninni og hersetuliðinu um. Árásirnar hafa áhrif á samskipti trúarhópanna og erfiðleikar við að koma á starfhæfri ríkisstjórn bæta ekki úr. Í gær var frestað að greina frá skipan nýrrar ríkisstjórnar og engar fregnir bárust af henni í dag. Fréttir bárust hins vegar frá uppreisnarmönnum sem sendu frá sér myndbandsupptöku. Á henni má sjá hvernig búlgarskri þyrlu, sem flutti óbreytta, erlenda starfsmenn á milli staða, er grandað. Uppreisnarmenn kveðast hafa skotið þyrluna niður en það væri í fyrsta skipti sem borgaralegt flugfar er skotið niður í Írak. Ekki hefur fengist staðfest að upptakan sé ósvikin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×