Innlent

Markaði djúp spor í frelsisbaráttu

Þjóðarleiðtogar hafa vottað páfa virðingu sína og kaþólikkum hluttekningu sína, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Hann sendi í dag samúðarkveðju til Jóhannesar Gijsen, biskups kaþólskra á Íslandi, með þeirri ósk að hún yrði einnig færð til Páfagarðs. Þar segir m.a. að Jóhannes Páll páfi hafi markað djúp spor í baráttunni fyrir lýðræði og frelsi víða um heim.

Samúðrakveðja forseta er svohljóðandi: „Ég votta kaþólsku kirkjunni einlæga samúð mína vegna andláts Jóhannesar Páls II páfa. Íslendingar varðveita kærar minningar um heimsókn Hans Heilagleika til Íslands og einstæða guðþjónustu sem fram fór á helgasta stað Íslands Þingvöllum þar sem Alþingi, elsta þjóðþing veraldar, var stofnað árið 930 og kristni var lögfest árið 1000. Jóhannes Páll varð fyrstur páfa til að heimsækja Ísland og þjóðin fagnaði honum innilega.

Ég minnist líka einlægra viðræðna okkar í Páfagarði fyrir fáeinum árum þegar ég ásamt herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands bauð Hans Heilagleika að senda sérstaka fulltrúa til kristnihátíðar á Þingvöllum þegar Íslendingar minntust þess að þúsund ár voru frá kristnitöku. Í þeim samræðum kom skírt fram vinarhugur hans í garð Íslendinga.

Jóhannes Páll II markaði djúp spor í baráttunni fyrir lýðræði og frelsi víða um heim og ferill hans mun verða talinn til merkustu tímabila í sögu kristninnar. Við andlát hans er þökk og samúð í hugum Íslendinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×