Innlent

Enn á landinu en án dvalarleyfis

Útlendur maður sem fyrir rúmum fjórum árum var synjað um dvalarleyfi hér á landi, er hér enn. Talsmenn Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins segja ekki hægt að senda hann úr landi þar sem enginn viti hvaðan hann er. Mál Aslans Gilajevs vakti mikla athygli í desember árið 2000. Honum var þá synjað um dvalarleyfi þrátt fyrir að vera kvæntur íslenskri konu, en Aslan sagðist vera frá Tsjetsjeníu. Honum tókst illa að sannfæra stjórnvöld um það og var honum synjað um dvalarleyfi þrátt fyrir að hann færi í hungurverkfall til að þrýsta á stjórnvöld. En þrátt fyrir að Aslan Gilajev hafi verið synjað um dvalarleyfi þá býr hann enn hér á landi, tæpum fimm árum eftir að hann kom fyrst hingað til lands. Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, segir málið erfitt viðureignar því hvert eigi að flytja menn sem ekki er vitað hvaðan eru. Hann segir málið ekki lengur á könnu dómsmálaráðuneytisins, heldur Útlendingastofnunar. Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að Aslan hafi í fyrra farið til Svíþjóðar og sótt þar um hæli sem flóttamaður. Þegar Svíar hafi komist að því að maðurinn hafi verið í sömu erindagjörðum hér hafi hann snarlega verið sendur hingað aftur og samkvæmt alþjóðasamningum urðu Íslendingar að taka við honum. Hún segir enga lausn á málinu í sjónmáli og tekur undir orð Stefáns um að erfitt sé að senda mann úr landi sem ekki er vitað hvaðan sé og því ekki vitað hvert eigi að senda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×