Sport

Samtök körfuknattleiksmanna

Fregnir herma að til standi að setja samtök íslenskra körfuknattleiksleikmanna á laggirnar. Nokkrir aðilar úr íslenska landsliðinu hafa viðrað þessa hugmynd sín á milli og eru menn sammála um nauðsyn þess að ýta slíkum samtökum úr vör. "Þetta snýst náttúrulega um að standa vörð um innlenda leikmenn og þeirra hagsmuni," sagði Friðrik Stefánsson, landsliðsmaður og leikmaður bikarmeistara Njarðvíkur.  Að sögn Friðriks hefur hugmyndin aðallega verið rædd á landsliðsæfingum og hlotið góðan hljómgrunn meðal leikmanna liðsins. Landsliðið kemur reyndar ekki saman á ný fyrr en að Íslandsmótinu loknu og má þá búast við að samtökin verði að veruleika. "Stóra spurningin er hversu mikil virkni næst úr þessu. Ég veit til þess að þjálfararnir reyndu á sínum tíma að setja á fót þjálfarasamtök en þau voru ekki mjög langlíf ef ég man rétt." Samkvæmt heimildarmanni Fréttablaðsins þykir mönnum einnig full ástæða til að sporna við þróuninni sem hefur átt sér stað í stjórnum íslenskra körfuknattleiksliða á síðustu árum. Innan vébanda félaganna er mörgu ábótavant og yrðu leikmannasamtökin einhvers konar hjálpartæki fyrir leikmenn varðandi ýmis mál sem kynnu að koma upp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×