Innlent

Ólga innan VG í Kópavogi eftir forval

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi. MYND/GVA

Ólga er innan Vinstri grænna í Kópavogi eftir forval flokksmanna í nóvember síðastliðnum. Þorleifur Friðriksson, sem laut í lægra haldi í baráttunni um efsta sætið, sakar keppinaut sinn um að smala langt út fyrir bæjarmörkin. Slíkt er hins vegar heimilt samkvæmt lögum flokksins, en stuðningsmenn hans hóta engu að síður úrsögn og hafa rætt við Samfylkingarmenn í bænum um að ganga til liðs við þá.

Í kjölfarið úrslita forvalsins sendi Þorleifur kjörstjórn bréf þar sem hann fór fram á að óvilhallur aðili kannaði hvort félagsmenn í VG í Reykjavík hefðu tekið þátt í forvalinu í Kópavogi. Forvalið var eingöngu opið félagsmönnum og segir í bréfi Þorleifs að Reykvíkingar hafi tekið þátt með því að skrá sig í Kópavogsfélagið.

Talsverður munur var á Ólafi og Þorleifi auk þess sem ekkert er í lögum flokksins sem bannar að menn skrái sig í félög utan heimabæjar og því hafnaði kjörstjórn kröfu Þorleifs. Svandís Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri VG, sagði þó ljóst að ekki hefðu verið brotnar forvalsreglur í Kópavogi. Reglurnar yrðu þó hugsanlega endurskoðaðar að loknu forvali í þeim sveitarfélögum sem flokkurinn býður fram í.

Samkvæmt heimildum NFS munu stuðningsmenn Þorleifs ekki una úrskurði kjörnefndar. Hafa þeir jafnvel hótað úrsögn úr flokknum. Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að óformlegar viðræður hefðu átt sér stað um inngöngu hinna óánægðu í Samfylkinguna. Ekkert væri þó enn ljóst í þeim efnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×