Innlent

Beðið eftir lögmanninum

Rannsókn á því hvort fjórir lettneskir starfsmenn GT verktaka séu löglegir í starfi sínu við fólksflutninga á Kárahnjúkum eða ekki er í biðstöðu meðan beðið er eftir því að lögmaður GT verktaka komi úr skíðaferð erlendis. Von er á honum til landsins í næstu viku og verður rannsókn málsins þá haldið áfram. Þegar er búið að yfirheyra Lettana en ekki er búið að yfirheyra aðra, t.d. stjórnendur fyrirtækisins. Lárus Bjarnason, sýslumaður á Egilsstöðum, segir að málið sé flókið og taki nokkurn tíma í rannsókn. Enginn tímarammi sé í gangi, mestu skipti að upplýsa málið. "Meðan ekki er leyst úr deilum um það hvort þetta sé löglegt eða ekki er mönnunum heimil dvöl í landinu því að þeir eru EES-borgarar," segir Lárus. "Við höfum ekki frumkvæði að því að stöðva atvinnu þessara manna meðan það liggur ekki fyrir." Deilan snýst um það hvort heimilt sé að vinna hér án atvinnu- og dvalarleyfis og segir Lárus reynt að hraða rannsókninni eins og mögulegt er. Mennirnir megi koma hingað, dveljast hér og leita sér að vinnu en umdeilt sé hvort þeir megi vinna hér án leyfa þar til nýjar reglur taka gildi 1. maí 2006. Talsmaður GT verktaka segir að Lettarnir séu starfsmenn undirverktaka síns, fyrirtækisins Vislandia í Riga í Lettlandi, og vildi ekki gefa upp símanúmer stjórnenda þess fyrr en lögmaðurinn væri kominn til starfa. Þegar reynt var að hafa uppi á símanúmeri Vislandia í Lettlandi fannst það ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×