Innlent

Ferðamenn víða veðurtepptir

Innanlandsflug lá niðri um allt land lungann úr gærdeginum vegna veðurs og urðu margir ferðamenn að gera sér að góðu að bíða löngum stundum á flugvöllum landsins. Ferðum Herjólfs til Eyja var einnig aflýst og truflanir urðu á millilandaflugi snemma í gærmorgun enda vindhraði þegar mest gekk á nálægt 65 hnútum eða sem nemur 35 metrum á sekúndu. Urðu farþegar á leið frá Boston að bíða þrjár stundir í vélinni á flugvellinum þar sem ekki var talið óhætt að hreyfa landganga í verstu hviðunum. Að sögn lögreglu víða um land var þó óvenjulítið um umferðaróhöpp en mikil hálka og snjófok var víða. Lögreglunni í Reykjavík bárust tilkynningar um átta árekstra en engin alvarleg meiðsl urðu á fólki í þeim. Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir skánandi veðri næstu daga, að vindhraði verði um fimm til tíu metrar á sekúndu. Búast má við áframhaldandi frosti víðast hvar um landið fram í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×