Erlent

Sýrlendingar hindra lýðræðisþróun

Það hitnar undir Sýrlendingum. Bandaríkjamenn saka þá um að hindra lýðræðisþróun og í Líbanon magnast óánægja með afskipti Sýrlendinga þar.  Neyðarfundir hafa verið haldnir í Beirút í dag en þar reyna forseti landsins og embættismenn að koma á fót bráðabirgðastjórn eftir að Omar Karamí forsætisráðherra sagði af sér á mánudaginn var. Innan kerfisins óttast menn að tómarúmið sem myndaðist í kjölfarið myndi enn æsa mótmælendur sem látið hafa til sýn taka á götum borga og bæja undanfarinn hálfan mánuð. Kerfið er gegnsýrt mönnum með tengsl við Sýrland, sem almenningi líkar lítt. Stjórnvöld í Sýrlandi eru líka í kreppu, enda er sótt að þeim á mörgum vígstöðvum. Bandaríkjamenn hafa um hríð sakað Sýrlendinga um stuðning við hryðjuverk og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í morgun að stjórn Bashar al-Assads kæmi í veg fyrir þróun lýðræðis í Líbanon, Írak og Palestínu. Assad lýsti því yfir í viðtali í gær að sýrlenski herinn færi von bráðar frá Líbanon. Íbúar Líbanons virðast hins vegar hafa fengið sig fullsadda og vilja að sýrlenski herinn fari strax.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×