Innlent

Vinstri - grænir mótmæla ráðningu

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur ályktað um ráðningu fréttastjóra á fréttastofu Útvarps og mótmælir ófagmannlegum vinnubrögðum við ráðninguna. Þar segir enn fremur: „Það er í hæsta máta ámælisvert að meirihluti útvarpsráðs og síðan útvarpsstjóri skuli virða að vettugi faglegt mat og óskir forsvarsmanna fréttadeildar Ríkisútvarpsins. Enginn fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs situr í útvarpsráði og gat því ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins. Hjáseta minnihluta útvarpsráðs er illskiljanleg og hefði verið nær að minnihlutafulltrúar hefðu lagt faglegum vinnubrögðum við ráðninguna lið með því að styðja þann umsækjanda sem þeir töldu hæfastan af þeim sem mælt hafði verið með. Vinnubrögð útvarpsráðs og útvarpsstjóra eru Ríkisútvarpinu ósamboðin og grafa undan tiltrú á þessa mikilvægu stofnun í þjóðareigu. Þetta mál sýnir þjóðinni eina ferðina enn að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hika ekki við að láta lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð lönd og leið þegar meintir flokkshagsmunir og helmingaskipti þeirra í milli krefjast. Það verður að gera þá kröfu til pólitískt kjörinna fulltrúa að þeir rísi yfir þrönga flokkshagsmuni þegar þeim er falið að gæta almannahags.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×