Sport

Íslendingarnir skipta sköpum

Fjölnir og Skallagrímur unnu sér sæti í Intersportdeildinni í haust en liðin tvö hafa átt góðu gengi að fagna í vetur. Liðin mættust síðast um miðjan febrúar í Borgarnesi og þá hafði Skallagrímur betur, 111-74. Fjölnir vann hins vegar fyrri leikinn, 87-72, og verður fróðlegt að sjá liðin eigast við í úrslitakeppninni. "Þetta er erfiðasta viðureignin að spá í því Skallagrímur virðist hafa eitthvert tak á Fjölni," sagði Einar Bollason körfuboltaspekingur. "Síðan Fjölnir missti Darrell Flake hefur liðið ekki náð sér að fullu. Það er margt sem bendir til þess að Skallagrímur hafi eitthvert tak á Fjölni en akkilesarhæll Fjölnismanna er að þeir hafa treyst of mikið á þessa þrjá útlendinga sína. Það eru góðir leikmenn hjá Fjölni sem verða einfaldlega að axla meiri ábyrgð. Ég hallast nú frekar að því að þessir ungu strákar reki af sér slyðruorðið og vinni í kvöld. Það spilar mikla rullu hjá þeim að liðið er nýorðið bikarmeistari í unglingaflokki þar sem Fjölnismenn lögðu hið firnasterka lið KR í úrslitum. En það má ekki vanmeta Val Ingimundarson, sem er með mikla reynslu og hefur búið til virkilega skemmtilegt lið þar sem hlutverk íslensku leikmannanna stækkar með hverjum leik. Svo er liðið með gríðarlega skemmtilegan bakvörð, Clifton Cook." Í Njarðvík taka heimamenn á móti ÍR-ingum en hvort lið hafði einn sigur í viðureignum liðanna í vetur. "ÍR-ingarnir hafa verið spútniklið síðustu umferðanna í þessu móti og loksins sýnt sínar réttu hliðar. En það er náttúrlega ógjörningur fyrir nokkurn mann að spá í þennan leik því Njarðvíkingarnir eru með nýja útlendinga. Maður spyr sig af hverju Njarðvíkingar voru að ná sér í nýja erlenda leikmenn því liðið sigraði Hauka, útlendingalaust, en Haukarnir eru jú eitt besta lið í langan tíma sem hefur endað utan úrslitakeppninnar. Það er ekki nokkur vafi á því að ef erlendir leikmenn væru bannaðir í deildinni myndi Njarðvík rúlla upp þessu móti. Ef Njarðvíkingar ná að stilla saman sína strengi vinna þeir þennan leik. ÍR-ingarnir gætu þó hæglega bitið frá sér en til þess þarf liðið að stöðva Brenton Birmingham, sem er hjartað og heilinn í þessu Njarðvíkurliði. Hann virðist vera að toppa á réttum tíma. Mannskapurinn í Njarðvík er gríðarlega sterkur og það eru til að mynda landsliðsmenn á bekknum. ÍR er mikið stemmningslið og ef liðið nær stemmningunni í gang geturi allt gerst. Það er það skemmtilegasta við úrslitakeppnina, að ef neðra liðið nær að stela fyrsta leiknum er komin gríðarlega mikil pressa á hitt liðið." sagði Einar Bollason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×