Innlent

Tryggir sér búlgarska Símann

Félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar hefur tryggt sér yfirráð yfir búlgarska símafélaginu BTC sem er skráð í kauphöllinni í Búlgaríu. Félag í eigu Björgólfs gekk í gær frá kaupum á félagi sem átti 65 prósent í BTC.

Björgólfur átti fyrir hlut í félaginu sem keypti hlut búlgarska ríkisins í BTC. Samkvæmt heimildum keypti Björgólfur um tíu prósenta hlut á markaði í gær svo hann ræður nú yfir 75 prósentum í félaginu. Viðskiptin leiða ekki til yfirtökuskyldu, en viðbótarkaupin kunna að leiða til þess að smærri hluthöfum verði gerð tilboð í það sem út af stendur.

Í tilkynningu sem send var kauphöllinni í Búlgaríu í gærkvöld er kaupverðið ekki gefið upp. Samkvæmt heimildum nemur umfang viðskiptanna um hundrað milljörðum króna. Kaupin eru því í hópi stærstu viðskipta Íslendinga erlendis.

Miðað við eignarhlutinn má búast við að Björgólfur Thor stefni að því að eignast félagið að fullu. Hann er umsvifamesti erlendi fjárfestirinn í Búlgaríu en hann er stærsti eigandi Actavis sem rekur lyfjaverksmiðju í landinu. BTC er upprunalega ríkissímafyrirtæki Búlgaríu og hefur svipaða stöðu þar í landi og Síminn hér. Björgólfur er auk þess umsvifamikill í fjarskiptafjárfestingum í nágrannalandi Búlgaríu, Grikklandi, auk þess sem hann hefur fjárfest í fjarskiptafyrirtækjum í Finnlandi og Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×