Innlent

Fjallvegir ruddir í morgun

Vegagerðarmenn þurftu að dusta rykið óvenju snemma af snjóruðningstækjum sínum í haust og ruddu þeir snjó af nokkrum fjallvegum í morgun. Meðal annars þurfti að ryðja Hrafnseyrarheiði og Þorskafjarðarheiði á Vestfjörðum í morgun. Þar varð ófært í nótt vegna snjókomu í gærkvöldi og víðar varð þæfingur í fyrstu eftir að snjórinn féll. Sömuleiðis var Fróðárheiði rudd í morgun og Klettsháls verður hreinsaður. Nokkur óhöpp urðu víða um land vegna hálku í gær og í gærkvöldi en engin slys hlutust af. Meðal annars hafnaði einn bíll niðri í fjöru við Suðureyri. Í morgun lentu líka nokkrir í vandræðum, meðal annars í Oddsskarði. Ekki er þó vitað um nein slys. Ekki má setja nagladekk undir bíla fyrr en fyrsta nóvember, eða eftir rúman mánuð, en lögregla amast þó ekki við því ef fólk er að fara á milli landshluta í ótryggum skilyrðum eða ef langvarandi vetrarkafla gerir. Víðast hvar er nú hálka á fjallvegum og sumstaðar á láglendi og vara bæði lögregla og Vegagerðin við vetrarfærð næstu daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×