Innlent

Viðræður um framhald listdanskennslu

Viðræður standa nú yfir á milli menntamálaráðuneytisins og aðila um framhald á listdanskennslu í landinu. Ekki fæst upp gefið hver sá aðili er en ljóst er að fagið verður áfram kennt þrátt fyrir að Listdansskóli Íslands verði lagður niður.

Nemendur í Listdansskóla Íslands efndu í gærkvöld til jólasýningar á Stóra sviði Borgarleikhússins, þeirrar síðustu sem skólinn heldur. Eins og greint hefur verið frá stendur til að leggja skólann niður í vor þegar yfirstandandi starfsári lýkur. Skólastjórnendum hafa engin svör borist frá menntamálaráðuneyti um það hvað komi í staðinn og hver staða núverandi nemenda sé og hvernig þeir eigi að útskrifast. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra var boðið á sýninguna en hún var hvergi sjáanleg í salnum.

Eftir því sem fréttastofa NFS kemst næst standa yfir viðræður um framtíð listdansnáms á Íslandi á milli menntamálaráðuneytisins og einhvers aðila sem ekki fæst gefið upp hver er. Ljóst er að það er ekki Listdansskólinn enda stendur til að leggja hann niður.

Örn Guðmundsson, skólameistari Listdansskóla Íslands, segist vita að einhverjar viðræður séu í gangi um framtíð listdansnáms á Íslandi en hverjar þær séu og hversu langt þær séu komnar viti hann ekki. Þá viti hann ekki hverjir ræði nú við menntamálaráðuneytið um málið.

Aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Steingrímur Sigurgeirsson, sagði í samtali við NFS í gærkvöld að tryggt yrði að kennsla yrði áfram í listdansi hér á landi en hann vildi ekki gefa upp í hvers höndum það væri. Hann býstvið að það skýrist síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×