Erlent

Allir Íslendingarnir fundnir

Starfsmenn utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Lundúnum hafa gengið úr skugga um að enginn Íslendingur var á meðal fórnarlamba tilræðanna í fyrradag. Um leið og fregnir bárust af árásunum í Lundúnum hófst utanríkisráðuneytið handa við að koma upp upplýsingalínu fyrir þá sem óttuðust um vini og ættingja. Alls þurfti að ná í 150 Íslendinga á Lundúnasvæðinu og höfðu ráðuneytið og sendiráðið samvinnu um það. Meðal annars heimsótti sendiráðspresturinn, sr. Sigurður Arnarson, sjúkrahús borgarinnar og athugaði hvort þar væri nokkra Íslendinga að finna. Um hádegisleytið í gær var svo búið að hafa uppi á öllu þessu fólki. Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Lundúnum, er ánægður með hversu vel gekk að finna allt þetta fólk. Hann segir að aðgerðaáætlunin sem var búin til þegar flóðbylgjan reið yfir Indlandshaf hafi komið sér vel. "Það er nauðsynlegt að búa við svona gott skipulag því það er ekki útilokað að svona muni eigi sér stað aftur. Allir geta hjálpað sér og öllum öðrum með því að láta sína nánustu vita strax þegar atburður eins og þessi á sér stað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×