Sprengjunum ætlað að drepa

Sprengjunum á London í gær var ætlað að drepa, segir Ian Blair, lögreglustjóri borgarinnar. Tilræðið í gær mistókst og telja sprengjusérfræðingar að tvær af sprengjunum fjórum hafi ekki sprungið. Engan sakaði, en einn var fluttur á sjúkrahús með asthma kast. Einn maður er í haldi lögreglu vegna árásanna, en öðrum sem handtekinn var í gær, hefur verið sleppt. Allsherjar leit að ódæðismönnunum er hafin og réttarlæknar hafa verið á vettvangi síðan í gær, til að skoða fingraför og annað sem gæti leitt lögreglu á slóð hinna seku. Bresku blöðin í dag tala um happadaginn og segja það ótrúlega mildi að enginn hafi slasast í gær. Hins vegar varpi það skugga á gleðina að tilræðismennirnir gangi ennþá lausir. Neðanjarðarlestakerfið í London gengur sinn vanagang nú í morgunsárið, en viðbrögð íbúanna við atburðum gærdagsins eru misjöfn. Sumir láta þá ekki hagga sér hið minnsta, en aðrir segjast ætla að reyna að komast hjá því að nota almenningssamgöngur á næstunni.