Skoðun

Enginn R-listi án samstarfsflokka

Borgarstjórnarkosningar - Björgvin Guðmundsson



Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur varpað fram þeirri hugmynd, að Samfylkingin ásamt óháðum bjóði fram R-lista með eða án samstarfsflokkanna. Þetta er djörf hugmynd en ég held, að hún gangi ekki upp. R-listinn er kosningabandalag þriggja flokka. Og það getur enginn einn flokkur tekið þetta nafn, Reykjavíkurlisti, og boðið fram í nafni hans. Það er rétt hugsanlegt, að tveir flokkar gætu boðið fram í nafni R-listans, til dæmis ef mál þróuðust þannig, að tveir flokkanna samþykktu að halda samstarfi um framboð áfram en einn flokkurinn mundi ákveða að hætta þátttöku í því. Þó er það alveg á mörkunum, að það stæðist.

R-listi er gott nafn og því er eðlilegt, að menn vilji halda í það. Þess vegna er hugmynd Össurar komin fram. Hann vill halda R-listanum hvað sem tautar og raular og jafnvel þó Samfylkingin ein stæði að þeim lista til dæmis með óháðum frambjóðendum eins og Degi B.Eggertssyni. En lausnin á framboðsmálum R-listans er ekki fólgin í því, að einn flokkur standi að R-listanum. Lausnin er fólgin í því að samstarfsflokkarnir, Samfylking, VG og Framsókn nái samkomulagi um framboðsmál sín og bjóði fram áfram undir merkjum R-listans. Flokkarnir geta náð slíku samkomulagi. Það er ekki erfiðara nú en áður. Lausnin felst að mínu mati í því, að sá flokkur sem fær borgarstjórann fái færri örugg sæti á framboðslistanum. Svo virðist sem mál hafi þróast á þann veg, að aðstandaendur R-listans telji eðlilegast, að Samfylkingin fái borgarstjórann og þá tel ég, að Samfylkingin geti á móti slakað á sínum kröfum um fjölda öruggra sæta á framboðslistanum. Það er síðan algerlega mál hvers flokks fyrir sig hvernig menn velja frambjóðendur á listann. Hver flokkur verður að fá að ráða því. Menn geta valið sína menn í prófkjöri eða með gömlu aðferðinni að láta uppstillinganefnd ákveða frambjóðendur og samþykkja slíkar tillögur á flokksfundi.

Enginn málefnaágreiningur er á milli flokka R-listans. Það er mikilvægasta atriðið. Þess vegna á samstarfið að halda áfram. Síðasta skoðanakönnun um fylgi flokkanna í borgarstjórn bendir til þess að mjög mjótt sé á munum milli R-listans og Sjálfstæðisflokksins. Í þessari könnun fékk Sjálfstæðisflokkurinn 52%. Mjög fáir tóku að vísu þátt í könnuninni og hún var tæplega marktæk. En eigi að síður gefur hún vísbendingu um stöðuna. Ég tel, að R-listinn muni halda meirihlutanum, ef listinn býður fram á ný. En næsta víst má telja, að Sjálfstæðisflokkurinn nái meirihlutanum, ef flokkar R-listans bjóða fram hver fyrir sig. Það er óþarfi að færa Sjálfstæðisflokknum meirihlutann.




Skoðun

Sjá meira


×