Innlent

Ekki hætta á flóðum í Reykjavík

Talsvert frost hefur verið á landinu það sem af er vetri en á næstunni er spáð hlýindum um allt land. Í Reykjavík mun hitinn vera frá fimm og upp í átta til níu stig þegar best lætur. Á föstudag er búist við kuldakafla í smá tíma en síðan heldur hlýindaskeiðið áfram samkvæmt spám Veðurstofu Íslands. Einnig verður hlýtt á landsbyggðinni en mest þó á Norðausturlandi en þar fer hitinn upp fyrir tíu stig. "Ég held að það sé ekki mikil hætta á flóðum hér í Reykjavík. Það er aðallega ef hlýnar mikið og rignir í þokkabót en við því er ekki búist. En við erum við því búnir að opna niðurföll og vitum að hættan er til staðar," segir Guðbjartur Sigfússon, verkfræðingur og staðgengill Sigurðar Skarphéðinssonar, gatnamálastjóra í Reykjavík. Guðbjartur vill brýna fyrir fólki að passa sín eigin niðurföll og kjallaratröppur því oft vill flæða inn. Annars er Guðbjartur ekki mjög áhyggjufullur. "Ástandið gæti verið mun verra en þetta og við ættum að njóta þessa góða veðurs sem leikur við okkur þessa dagana."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×