Innlent

Gunnar í varaformanninn

Gunnar Örlygsson alþingismaður Frjálslynda flokksins ætlar að bjóða sig fram gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni, varaformanni, á landsþingi flokksins sem fram fer um næstu helgi. Gunnar vill með framboði sínu meðal annars færa flokkinn lengra til hægri. "Ég tel mig vera sterkan kandídat til að ná fram frjálslyndum, alþýðlegum hægri glampa á flokkinn því þar liggja sóknarfærin fyrir okkur í dag. Ef Frjálslyndi flokkurinn á að verða sterkur flokkur á landsvísu með 15-20 prósenta fylgi verður hann að greina sig frá stjórnarandstöðuflokkunum tveimur." Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins hefur lýst yfir óánægju sinni með framboð Gunnars. "Það hefur tekið tíma að þjálfa menn til starfa og Gunnar hefur minnsta þingreynslu af þingmönnum flokksins. Maður hlýtur að standa með þeim varaformanni sem er að vinna með manni." Gunnar undrast þetta og segist heldur vilja að Guðjón horfði til framtíðar. "Ég hefði frekar kosið að hann lýsti yfir ánægju yfir því að það væri metnaður hjá hans fólki." Hann hafnar því hins vegar að framboðið sé andvana fætt vegna þessa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×