Innlent

Segir Evrópuumræðu leikrit

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, segir Evrópuumræðu Framsóknarflokksins um helgina að öllum líkindum leikrit til að breiða yfir innanbúðarátök í flokknum. Sé hins vegar um raunverulega stefnubreytingu að ræða geti það þrengt hjónabandsmarkaðinn fyrir Framsókn eftir næstu kosningar. Steingrímur J. Sigfússon segir ekki ljóst hversu alvarlega beri að taka samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins sem útilokar ekki lengur aðild að Evrópusambandinu. Hann segir að kannski hafi þetta leikrit verið sett á svið til að breiða yfir önnur erfiðari mál hjá flokknum, eins og mörg stærstu mál ríkisstjórnarinnar og mikinn innanflokksvanda. Að því marki sem hann taki þetta alvarlega séu þetta ákveðin skilaboð að Framsóknarflokkurinn máti sig við aðildarstefnuna og greinilegt sé að hugur Halldórs Ásgrímssonar og annarra stefni í þá átt. Spurður hvort hann telji stefnubreytinguna marka tímamót segir Steingrímur að það sé þá kannski helst að hún hljóti að hafa áhrif á mögulega samstarfsaðila Framsóknarflokksins um þessi mál. Hann velti því fyrir sér hvort í þessu séu fólgin ákveðin skilaboð, annars vegar til Sjálfstæðisflokksins og hins vegar Samfylkingarinnar. „Ef menn tala um það af einhverri alvöru að taka það upp sem formlega stefnu flokksins að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili þá væntanlega þrengir það eitthvað hjónabandsmarkaðinn fyrir Framsókn,“ segir Steingrímur. Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar, telur hins vegar ekki að þetta hafi áhrif á stjórnarsamstarfið. Hún segir að það sé ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hún fái ekki séð að ályktun Framsóknarflokksins breyti neinu þar um. Það sé þó ljóst að talsverður áhugi sé á málinu innan Framsóknarflokksins vegna þess að það hafi verið miklar umræður um það á flokksþinginu en hún vilji minna á að nefnd sem Davíð Oddsson hafi skipað sé nú starfandi. Þar sé að finna fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem fari yfir Evrópusambandsmálin og því sé ljóst að fylgst sé með þróun mála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×