Innlent

15,7% þingmanna heimsins konur

15,7% þingmanna heimsins eru konur. Það er fjórum prósentustigum meira en fyrir áratug en þróunin er alltof hæg. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu alþjóðasamtaka þjóðþinga.   Samkvæmt skýrslunni er Rúanda á toppi jafnréttislistans annað árið í röð en þar eru konur 48,8% þingmanna í neðri deild og 34,6% í efri deild. Svíþjóð er í öðru sæti á þeim lista en efst á lista um jafnrétti í ríkisstjórn. Þar eru konur 52,4% ráðherra en Spánn fylgir fast á eftir með konur í nákvæmlega helmingi ráðherraembætta. Forseti Alþjóðasamtaka þjóðþinga, Sergio Paez frá Chile, segir Svíþjóð því í raun vera eina landið í heiminum sem hafi fyrir alvöru náð markmiðinu um jafnrétti kynjanna í stjórnmálum. Á Íslandi er hlutfall kvenna á þingi tæp 32% en í ríkisstjórn eru konur þrjár af tólf ráðherrum eða 25%. Norðurlöndin eru þó það svæði í heiminum þar sem meðalhlutfall kvenna á þingi er hæst en lægst er það í Miðausturlöndum, 6,5%. Það er samt tvöföldun á síðustu fimm árum sem einkum má rekja til umbóta í Marokkó, Jórdaníu og Túnis. Áhrif kosninganna í Írak eru ekki reiknuð með heldur. En þrátt fyrir að þróunin virðist vera í rétta átt þá er Sergio Paez ekki sáttur við hversu hæg hún er. Þar að auki hafi komið í ljós að hlutfall kvenna í stöðu þjóðarleiðtoga hefur lækkað úr 4,7% í 4,2% frá árinu 2000, sem bendir til þess að hið margfræga glerþak sé enn til staðar, þó að það hafi kannski þokast aðeins ofar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×