Erlent

Wolfowitz ekki í Alþjóðabankann

Paul Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, verður ekki næsti forseti Alþjóðabankans. Fráfarandi forseti bankans, James Wolfensohn, lýsti þessu yfir í Brussel í dag.   Sögur höfðu gengið um að Bandaríkjamenn vildu Wolfowitz í starfið en þegjandi samkomulag er milli Evrópu og Bandaríkjanna um að forseti Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sé evrópskur en Bandaríkjamenn eigi forsetastólinn í Alþjóðabankanum. James Wolfensohn, fráfarandi forseti, tilkynnti blaðamönnum að Wolfowitz væri ekki lengur inni í myndinni eftir fund hans með José Manuel Barroso, formanni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Brussel í dag. Wolfensohn sagði við sama tækifæri að eftirmaður hans þyrfti að vera eldheitur baráttumaður gegn fátækt og fyrir bættum hag mannkyns um allan heim. Það væri ekki nóg að vera bara góður stjórnandi. Aðspurður hvort Wolfowitz uppfyllti þessi skilyrði brosti Wolfensohn og sagði menn kannski hafa ruglað saman Wolfowitz og syni sínum, Paul Wolfensohn. Wolfowitz hefur verið álitinn einn helsti haukurinn í stjórnarliði George Bush. Bandaríkjamenn hafa að minnsta kosti einu sinni neitað að samþykkja tillögu Evrópumanna um forseta Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en ekki er ljóst hvort Evrópumenn hafi leikið sama leikinn núna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×