Innlent

Sölu Símans verði lokið í júlí

Allur eignarhlutur ríkisins í Símanum verður seldur í einu lagi til hóps fjárfesta í júlí í sumar. Enginn fjárfestir í hópnum má eiga meira en 45 prósent hlut í fyrirtækinu og verða því að minnsta kosti þrír aðilar að vera á bak við hvert tilboð. Fyrir árslok 2007 verður að bjóða almenningi og öðrum fjárfestum að kaupa 30 prósent af heildarhlutafé. Jón Sveinsson, formaður einkavæðinganefndar, kynnti söluferlið í gærdag eftir að ráðherranefnd um einkavæðingu afgreiddi málið af sinni hálfu. Nú gefst áhugasömum fjárfestum tækifæri til að fá ítarlegri upplýsingar um rekstur Símans og skila inn óbindandi tilboði fyrir 6. maí. Allir sem hafa getu til að ljúka kaupunum koma til greina sem kaupendur, segir Jón. Í framhaldinu verður þeim boðið að gera bindandi tilboð. Við mat á tilboðum verður meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks, reynslu af rekstri fyrirtækja og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans. Einkavæðinganefnd gefur ekki upp hugsanlegt verð á hlut ríkisins. Miðað við meðalverð, þegar selja átti Símann árið 2001, var fyrirtækið metið á 45 milljarða króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×