Innlent

Leita mannsins með sporhundum

Um það bil 90 björgunarsveitarmenn hófu leit klukkan átta í morgun að Brasilíumanninum sem ekkert hefur spurst til síðan klukkan tíu á laugardagsmorgun, að hann fór í gönguferð frá heimili á Stokkseyri þar sem hann var gestkomandi. Hátt í hundrað björgunarsveitarmenn leituðu hans fram á kvöld í gær og úr þyrlu Landhelgisgæslunnar og annarri flugvél. Ekki er enn farið að leita úr lofti í dag en björgunarmen leita nú með sporhundum. Þá hefur dregið úr brimi þannig að hugsanlega verður leitað af sjó í dag. Björgunarmenn gengu fjörur á fjörunni í morgun og munu gera það aftur í kvöld. Búið er að fínkemba allt þorpið á Stokkseyri og fara á alla nálæga bæi, í sumarbústaði og mannlaus hús en án árangurs. Nú er búið að ganga fjörur austan frá Þjórsárósum, yfir Ölfusárós og langleiðina vestur í Selvog. Ýmsar vísbendingar hafa borist um ferðir mannsins en engin þeirra hefur skilað árangri. Sérstök áhersla verður lögð á leit í fjörunni í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×