Innlent

Langbesta afkoma FL-Group til þessa

MYND/GVA

Hagnaður FL Group fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins var rúmir 8 milljarðar króna, samanborið við 3,4 milljarða króna hagnað á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Að teknu tilliti til skatta var hagnaður tímabilsins tæpir 6,6 milljarðar króna, samanborið við 2,8 milljarða króna fyrir sama tímabil í fyrra. Afkoman er í samræmi við tilkynningu félagsins frá 23. október síðastliðnum.

Hannes Smárason, segir þetta vera langbestu afkomu í sögu félagsins og endurspeglar árangurinn af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á starfseminni á undanförnum misserum. Hann segir þessa góðu afkomu byggjast að stórum hluta á gengishagnaði, en afkoma rekstrarfélaganna var einnig góð og í samræmi við væntingar. Sá árangur er vel viðunandi í ljósi þess að eldsneytisverð hefur verið mjög hátt og gengi íslensku krónunnar óhagstætt.

Í lok tímabilsins námu heildareignir samstæðunnar um 70 milljörðum króna og hafa því aukist um 27 milljarða króna frá áramótum. Stærstan hluta þessarar aukningar eða 11,2 milljarða króna má rekja til fyrirframgreiðslna vegna kaupa á fimmtán 737-800 flugvélum. Gert er ráð fyrir því að þessar fyrirframgreiðslur muni fara út af efnahagsreikningi félagsins við afhendingu vélanna á næstu tveimur árum.

Eigið fé FL Group var um 21 milljarður króna í lok tímabilsins og hefur aukist um 5,8 milljarða króna frá áramótum. Eins og fram hefur komið lauk útboði á nýju hlutafé í FL Group þann 10. nóvember sl. þar sem selt var hlutafé fyrir 44 milljarða króna. Í kjölfar útboðsins er eigið fé félagsins því 65 milljarðar króna og heildareignir 114 milljarðar króna. Fjárhagsstaða FL Group er því mjög sterk og er eiginfjárhlutfallið 57%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×