Sport

Óvænt úrslit í Stykkishólmi

Óvænt úrslit urðu í úrslitakeppni Intersportdeildarinnar í gær þegar KR sigraði Snæfell í Stykkishólmi með 91 stigi gegn 89 í fyrstu rimmu liðanna í fjórðungsúrslitum. Sæfell varð í 2. sæti deildarkeppninnar en KR í því sjöunda. Bandaríkjamaðurinn Aaron Harper var hetja KR en hann setti niður þriggja stiga körfu sjö sekúndum fyrir leikslok. Harper skoraði 36 stig fyrir KR og Cameron Echols 21. Hlynur Bæringsson skoraði 20 stig fyrir Snæfell. Íslandsmeistarar Keflavíkur áttu ekki í vandræðum með granna sína Grindavík í fyrstu rimmu liðanna í fjórðungsúrslitum. Keflavík sigraði með 21 stigs mun, 101-80. Anthony Glover skoraði 30 stig fyrir Keflavík og Nick Bradford 26. Jeffrey Boschee var atkvæðamestur Grindvíkinga með 25 stig. Magnús Gunnarsson, stórskytta Keflvíkinga, nefbrotnaði en ætlar samt að spila á morgun þegar liðin mætast að nýju. Fyrstu umferð fjórðungsúrslitanna lýkur í kvöld með tveimur leikjum. Fjölnir tekur á móti Skallagrími og í Njarðvík mætast heimamenn og ÍR. Leikirnir hefjast kl. 19.15.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×