Innlent

Vatnselgur á Höfn í Hornafirði

Mikill vatnselgur er á götum Hafnar í Hornafirði og hefur víða flætt inn í kjallara húsa. Rignt hefur látlaust síðan í gærmorgun og mældist sólarhringsúrkoma í Akurnesi 149 millímetrar. Fram kemur á vefnun hornafjörður.is að bæjarstarfsmenn hafi staðið í ströngu við að dæla burt vatni úr og frá húsum því fráveitukerfið hafi ekki undan. Í húsi við Höfðaveg stóðu húseigendur í vatnsdælingu úr eldhúsi og þvottahúsi í alla nótt og höfðu vart undan og við Víkurbraut er sem hafsjór yfir að líta og þar er hætta á að símatengikassi fari í kaf en reynt verður að dæla vatni þar frá. Haft er Helga Má Pálssyni bæjarverkfræðingi að allar tiltækar dælur séu komnar í notkun og reynt verði eftir því sem hægt er að aðstoða með dælingu. Helgi vill biðja húseigendur að hafa sérstakan vara á um og eftir háflóð sem verður núna klukkan hálffjögur þar sem hætta er á að flæði inn og færa verðmæti á örugga staði. Lögregla á Höfn kannar nú ástand vega á leiðinni til Reykjavíkur og að sögn hennar er töluverður vöxtur í ám en þó ekki þannig að flætt hafi yfir þjóðveginn. Útlit er fyrir að það dragi úr rigningunni síðar í dag en spáð er mikilli rigningu á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×