Erlent

Fjöldabrúðkaup í Aceh-héraði

Mikil hátíðahöld voru í flóttamannabúðum í Aceh-héraði í Indónesíu í gær, þegar tuttugu og þrjú pör, á aldrinum 22 til 63 ára, gengu í það heilaga. Fólkið hefur hafst við í flóttamannabúðunum frá því flóðbylgjan reið yfir annan í jólum á síðasta ári. Mörg þeirra misstu þá allt sitt, heimili, vini og ættingja. Hátíðahöldin í kringum þetta fjölmenna brúðkaup voru þau fyrstu á svæðinu frá því hörmungarnar dundu yfir og tilfinningarnar voru blendnar. Meliana, ein brúðanna, sagðist bæði glöð og döpur. Hún væri döpur vegna þess að brúðkaupið færi ekki fram heima hjá henni en glöð af því að henni og öðrum hefði verið hjálpað þannig að af brúðkaupunum gæti orðið. Yusri, maður hennar, sagðist vona að stjórnvöld gætu hjálpað þeim því þau vissu ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér. Í Aceh-héraði er talið að fleiri en 130 þúsund manns hafi látist í hamförunum og hálf milljón íbúanna missti heimili sín. Eins og gefur að skilja vill fólk ekki dvelja lengi í flóttamannabúðum og binda pörin, sem giftu sig í gær, miklar vonir við að uppbyggingarstarf á svæðinu verði til þess að þau geti á ný staðið á eigin fótum. Syech Syam, sem einnig var að gifta sig, sagðist ætla að komast í vinnu og ef honum tækist að vinna sér inn peninga ætlaði hann að endurbyggja húsið sitt. Hann vildi ekki búa í tjaldi það sem eftir yrði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×