Innlent

Klappað fyrir ráðherra vegna ganga

Klappað var á Siglufirði í dag þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lýsti því yfir að borun Héðinsfjarðarganga hæfist eftir sextán mánuði. Göngin eiga að vera tilbúin í lok árs 2009. Reiðialda braust raunar út á Siglfirði sumarið 2003 þegar ríkisstjórnin frestaði jarðgangaframkvæmdum um tvö ár skömmu eftir þingkosningar. Fyrir kosningar hafði því verið lofað að framkvæmdir hæfust haustið 2004. Það átti sem sagt að byrja að bora síðastliðið haust miðað við fyrri loforð. Í dag mættu hátt í 300 manns í Bátahús Síldarminjasafnsins til að hlýða á samgönguráðherrann flytja nýjasta loforð ríkisstjórnarinnar. Það hljóðar þannig: Framkvæmdir hefjast í júlí 2006, eftir sextán mánuði, og þeim á að ljúka fyrir jól 2009, eftir fjögur og hálft ár. Bæjarstjóri Siglufjarðar, Runólfur Birgisson, segir að menn hafi fagnað og klappað mikið þegar Sturla Böðvarsson lýsti þessu yfir og menn telji ljóst að við þetta verði staðið. Göngin sem tengja eiga Siglufjörð og Ólafsfjörð um Héðinsfjörð verða í tvennu lagi, samtals 10,2 kílómetrar. Saman verða þau lengstu veggöng hérlendis og verkefnið í heild ein stærsta framkvæmd sem ríkið hefur lagt í. Megintilgangurinn er að tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og þar með Akureyri. Þegar tilboð voru opnuð í fyrra útboði vorið 2003 reyndist lægsta boð vera upp á liðlega sex milljarða króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×