Innlent

Fischer strax á launaskrá?

Flest bendir til þess að Bobby Fischer komist strax á launaskrá hjá hinu opinbera, ef hann kemur hingað til lands, því hann á rétt á launum sem svara menntaskólakennaralaunum þar sem hann verður íslenskur stórmeistari í skák. Það mun meðal annars hafa verið vegna þessa og gruns um enn frekari opinberan kostnað af honum sem stjórnarþingmennirnir Dagný Jónsdóttir og Birkir J. Jónsson úr Framsóknarflokki sátu hjá á Alþingi í gær þegar greidd voru atkvæði um hvort veita skyldi Fischer ríkisborgararétt. Forseti Íslands á eftir að staðfesta lög um ríkisborgararétt hans og síðan verður að birta þau í Stjórnartíðindum svo þau öðlist gildi. Japanar munu íhuga að senda Fischer til Íslands ef þeim berst staðfesting á því að honum hafi verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir dómsmálaráðherra Japans í morgun. Hann segist ekki enn hafa fengið staðfestingu á því en sé það raunin muni útlendingaeftirlit Japans afgreiða málið samkvæmt japönskum lögum. Samkvæmt þeim komi vel til greina að Fischer fari til Íslands.  Fljótlega eftir hádegi ætla stuðningsmenn Fichers að halda blaðamannafund þar sem staða mála verður kynnt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×