Innlent

Fá mun meira úr sjóði en greitt er

Vestfirðir, Norðurland og Austurland fá um helmingi meira úr flutningsjöfnunarsjóði olíuvara en þessir landshlutar greiða í hann og hafa þeir því mest gagn af honum. Þetta kom fram í skriflegu svari Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar á Alþingi í gær. Flutningsjöfnunargjald er lagt á vissar olíuvörur og rennur það í sjóðinn, en markmið hans er að bæta hag fyrirtækja og einstaklinga í dreifðum byggðum. Greiðslur úr sjóðnum á árinu 2003 námu um 531 milljónum króna en upphæðin hefur verið svipuð undanfarin ár. Verðlagning á olíuvörum fer nú eftir samkeppnislögum en sú regla er ekki lengur í gildi að olíufélög þurfi að selja sömu tegund af olíuvörum á sama verði um land allt. Olíuvörur geta því verið dýrari í afskekktum byggðum en á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir jöfnunarsjóðinn en ætla má að verðmunurinn væri enn meiri án hans. Slíkt myndi meðal annars bitna á útgerðarfyrirtækjum. Mismunur á olíuverði getur meðal annars stafað af því að birgðastöðvar, sem geta verið dýrar í rekstri á afskekktum stöðum, njóta ekki stuðnings úr sjóðnum heldur aðeins flutningur vara til þeirra. Þá nær jöfnunin aðeins til viðurkenndra útsölustaða og stærðarhagkvæmni gætir ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×