Innlent

Konur aftur inn á heimilin?

Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður spyr hvort ráðamenn þjóðarinnar vilji að konur fari aftur inn á heimilin til að hugsa um börnin. Bæði forsætisráðherra og biskup hafa lýst því yfir við þessi áramót að gömul og gróin fjölskyldugildi séu á undanhaldi með óæskilegum afleiðingum.  Halldór Ásgrímsson spurði í áramótaávarpi sínu hvort ástæða væri til að sjá fjölskyldugerð fyrri tíma í hillingum? Hvort stórfjölskyldan hefði gefið um of eftir. Hann hefur ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar. Í sama streng tók Karl Sigurbjörnsson biskup í nýársávarpi sínu í gær og sagði að aldrei fyrr hefðu jafn mörg börn verið yfirgefin og á þessum velmegunardögum. Guðrún Ögmundsdóttir segir að það glitti í íhaldssama bandaríska fjölskyldustefnu. Spurning sé hvort undirliggjandi sé að konur eigi hreinlega að fara aftur inn á heimilin og hætta að mennta sig. Hún segir alveg vitað hvað þurfi að laga í landinu varðandi fjölskylduna og þá sé spurning hvort ekki eigi að fara evrópsku leiðina, með styttingu vinnuvikunnar og fleiri slík úrræði, í srað þeirrar bandarísku þar sem konur fari heim að námi loknu. Guðrún segir að þessi málfutningur sé fyrst og fremst til þess fallin að ala á samviskubiti foreldra. Það sé verið að segja einstæðum mæðrum og fólki sem þurfi að vinna mikið til að ná endum saman að það fari betur á því að annast börnin sín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×