Innlent

Dómur fyrir innflutning á hassi

Þrítugur karlmaður var dæmdur í sjö mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun fyrir að hafa flutt með sér til landsins rúmlega 190 grömm af hassi. Maðurinn flutti hassið með sér til landsins í febrúar í fyrra en tollverðir fundu fíkniefnið við leit á honum og í farangri hans eftir komu til Keflavíkurflugvallar með flugi frá Kaupmannahöfn. Taldist þetta varða lög um ávana- og fíkniefni og var þess krafist í ákæru að maðurinn yrði dæmdur til refsingar, auk upptöku á framangreindum fíkniefnum. Ákærði játaði skýlaust fyrir dómi að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og taldist því sannað að hann hefði haft 190,60 grömm af hassi í fórum sínum. Maðurinn hafði áður hlotið fangelsisdóma, meðal ananrs fyrir rán, tékkasvik, umferðarlagabrot, nytjastuld og meiriháttar eignaspjöll. Hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi árið 2002 fyrir rán, þar af sex mánuði skilorðsbundið til þriggja ára en með því broti sem hann var nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð dómsins. Vegna þess hve magn fíkniefnanna sem hann flutti inn var mikið taldi Héraðsdómur Reykjaness ekki unnt að láta skilorðsdóminn haldast og dæma sér í lagi fyrir það brot sem hann var nú ákærður fyrir. Dómurinn taldi hæfilega refsingu sjö mánaða fangelsi en þótti þó rétt að fresta fullnustu fimm mánaða og skyldi sá hluti falla niður að þremur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×