Innlent

Snjóflóðahætta á Patreksfirði

Sex íbúðarhús voru rýmd á Patreksfirði nú fyrir hádegið vegna snjóflóðahættu en flóð féll úr hlíðinni fyrir ofan bæinn í morgun og niður á götuna Mýrar. Engin hús eða mannvirki eru þar sem flóðið féll þótt það sé innan byggðarinnar. Þar hafa snjóflóð fallið áður. Þá féll flóð úr Raknadalshlíð á þjóðveginn í nótt og lokaði leiðinni til Barðastrandar en hann hefur nú verið ruddur. Að sögn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofunni er vitað um nokkur smærri flóð utan byggða á sunnanverðum Vestfjörðum en hvergi er talin hætta í vöktuðum byggðakjörnum, nema í húsunum sex á Patreksfirði. Annars er fylgst grannt með framvindu mála því við skilyrði eins og núna, þegar snjór hafur fallið ofan á harðfenni og svo rignir ofan í það í hláku, getur orðið talsverð hreyfing, í það minnsta á efsta snjóalaginu. Viðbúið er að flóð hafi fallið hér og þar utan byggða án þess að hafa valdið tjóni og án þess að nokkur hafi tekið eftir því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×