Erlent

Funda um trúnað í utanríkisnefnd

Ég lít þetta sömu augum og Björn, sem sat þennan fund utanríkismálanefndar. Listinn var síðari tíma tilbúningur í Washington," sagði Pétur Gunnarsson, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, í gær um tilurð lista staðfastra þjóða vegna aðkomu Íslands að innrásinni í Írak. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifaði í pistli á heimasíðu sinni fyrir viku að ""listinn" [væri] í raun ekkert annað en tveggja ára gömul fréttatilkynning frá Hvíta húsinu". Fréttablaðið spurði hann hvernig bæri að skýra þessi orð hans í ljósi þess sem nú hefur komið fram. "Það hefur ekkert komið fram, sem breytir því, sem ég sagði á vefsíðu minni," svaraði hann. Sem fyrr segir er Pétur Gunnarsson sammála Birni. "Þetta staðhæfi ég og stend við og byggi á upplýsingum sem ég tel óyggjandi. Ég hef ekki séð fundargerð utanríkismálanefndar en minni á að á þeim tíma var þessi listi ekki orðinn umræðuefni. Það var ekki fyrr en seinna að menn fara að gera greinarmun á þessari ákvörðun um pólitískan stuðning og listanum sem slíkum. Halldór hefði getað verið að vísa til ákvörðunarinnar en ekki listans á þessum fundi," sagði Pétur . Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar, sagði aðspurð að ekki stæði til að aflétta trúnaði á fundargerðum utanríkismálanefndar þrátt fyrir ósk stjórnarandstöðunnar. "Það er hins vegar ljóst að það þarf að ræða um meðferð trúnaðarupplýsinga í nefndinni og stefni ég að því að boða til fundar til að ræða það efni, líklega seinni partinn í næstu viku eftir að þing kemur saman," sagði Sólveig. Spurð út í hinar misvísandi fullyrðingar ráðamanna um vitneskju stjórnvalda um listann þegar ákvörðunin var tekin sagði hún: "Ég vil ekki tjá mig um þær upplýsingar sem Fréttablaðið telur sig hafa undir höndum." Fréttablaðið hefur ítrekað komið á framfæri ósk sinni um að Halldór Ásgrímsson veiti svör við spurningum blaðsins en ekki haft erindi sem erfiði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×