Innlent

Segir smáþjóðir geta skipt sköpum

Ísland og aðrar smáþjóðir geta skipt sköpum í sáttaumleitunum með því að sýna hógværð í umdeildum alþjóðamálum, segir Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Hann telur smáþjóðir geta haft mikil áhrif með starfi innan öflugra alþjóðastofnana. Thorvald Stoltenberg, sem var aðalræðumaður á málþingi framtíðarhóps Samfylkingarinnar um öryggismál í heiminum, sagði smáþjóðir hafa ýmsa möguleika til að tryggja sem best hagsmuni sína í sífellt minnkandi heimi. Hann sagði það m.a. hægt með því að taka þátt í sterkum, alþjóðlegum samtökum. Ef Íslendingar og Norðmenn ynnu heimavinnuna sína gætu þeir haft áhrif í hagsmunamálum sínum. Stoltenberg sagði að þátttaka í alþjóðlegum stofnunum á borð við NATO, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið gæti reynst smáþjóðum vel og skilað þeim miklu. Hann ræddi einnig um aðra möguleika fyrir smáþjóðir til að láta til sín taka. Þær gætu verið með áberandi pólitík eins og bæði Íslendingar og Norðmenn hefðu gert í fiskveiðimálum og einnig beitt sér á lítt áberandi hátt eins og Norðmenn gerðu í Víetnamstríðinu. Þá hafi stjórnvöld bæði í Washington og Hanoi fengið Norðmenn til að bera boð á milli landanna tveggja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×