Erlent

Stórfelld árásarhrina undirbúin

Lykilmaðurinn í flestum sprengjutilræðum sem gerð hafa verið í Írak síðustu vikur er kominn á bak við lás og slá að sögn þarlendra yfirvalda. Svo virðist sem handtakan hafi ekki dregið vígtennurnar úr andspyrnuhópum sem talið er að séu að skipuleggja stórfellda árásarhrinu síðustu dagana fyrir þingkosningarnar. Einn nánasti samstarfsmaður Abu Musab al-Zarqawis, sem er sakaður um að hafa skipulagt um þrjátíu sprengjutilræði, m.a. árásina á höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Bagdad fyrir tæpum tveimur árum, var hnepptur í varðhald fyrir rúmri viku en ekki var skýrt frá handtökunni fyrr en í dag. Vitað er að samtök Al-Zarqawis hafa náin tengsl við Al-Kaída samtökin og handtaka þessa lykilmanns þykir því þó nokkur fengur. Forsvarsmenn Bandaríkjahers segja að merkjanleg fækkun hafi orðið í árásum andspyrnuhópa í Írak síðustu dagana. Þessi fækkun er þó ekki rakin til handtökunnar heldur telja fréttaskýrendur sig hafa heimildir fyrir því að andspyrnuhópar landsins séu aðeins að undirbúa stórfellda árásarhrinu um næstu helgi þegar líður að kosningum. Þrátt fyrir að yfirvöld í Írak og Bandaríkjunum reyni sitt besta til að sannfæra írakskan almenning um að öryggi þeirra á kjörstöðum verði tryggt eru mjög margir sem treysta því illa, enda er óttast er að kosningaþátttakan verði afar dræm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×