Erlent

Bandarískir hermenn á nálum

Gríðarleg spenna liggur í loftinu í Írak nú þegar aðeins sex dagar eru í þingkosningar. Bandarískir hermenn í landinu eru á nálum því að árásir andspyrnumanna eru eins og rigningin: maður veit aldrei hvar hún lendir. Þetta segir sjónvarpsmaðurinn Jón Ársæll Þórðarson sem er á ferð með bandaríska hernum í Írak. Jón Ársæll og Ingi R. Ragnarsson kvikmyndatökumaður eru staddir í bandarískum herbúðum um 180 kílómetra norðvestur af Bagdadborg. Þar eru þeir að taka upp þætti fyrir þáttaröðina um Sjálfstætt fólk um íslenska stúlku sem er hermaður í Bandaríkjaher. Þeir félagar segjast ekki hafa farið varhluta af spennunni sem nú magnast í Írak vegna þingkosninganna sem haldnar verða um næstu helgi. Jón segir greinilegt að Bandaríkjamenn ætli að leggja allt í sölurnar til að þær geti farið eðlilega fram, enda kosningarnar þeim augljóslega mikils virði. Hermenn verða t.d. á kjörstöðum víða um landið. Jón Ársæll segir að þrátt fyrir daglegar fréttir frá Írak hafi ástandið þar komið sér verulega á óvart. Ekki sé um venjulega hersetu Bandaríkjahers að ræða, það fari ekki á milli mála að enn geisar stríð í landinu og bandarísku hermennirnir í Írak óttist um líf sitt. Árásir séu gerðar daglega og hermennirnir í rauninni í stríði við allt og alla því þeir viti ekki hvernig óvinurinn líti út. Hann stekkur bara óforvarandis út úr mannfjöldanum. Hvað sitt öryggi varðar segir Jón að hann og Ingi séu á svæði sem sé tiltölulega öruggt. Þó gildi vissulega strangar reglur sem þeim hafi verið settar og fylgja þeir þeim í hvívetna. „En þetta er eins og rigningin: maður veit aldrei hvar skúrirnar koma,“ segir Jón Ársæll. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×