Erlent

Fjöldi vopna haldlagður

Bandarískir hermenn hafa undanfarna daga lagt hald á töluvert magn vopna sem talið er að hafi átt að fara til hryðjuverkamanna í aðdraganda kosninganna í Írak sem fara fram eftir fimm daga. Vopnin fundust í leit á heimilum meintra uppreisnarmanna í Bagdad. Fimm menn, þar af einn írakskur lögregluþjónn, voru handteknir vegna málsins. Meðal þess sem hermennirnir fundu voru sex tunnur fullar af sprengjuvörpum, skotfærum, rifflum og skammbyssum sem grafnar höfðu verði í jörðu. Í leit á tveimur heimilum fundu þeir einnig átta lögreglubúninga, efni til sprengjugerðar og sextán þúsund skothylki.  Í morgun skutu uppreisnarmenn írakskan dómara til bana í austurhluta Bagdad þegar hann yfirgaf heimili sitt og hélt til vinnu. Uppreisnarmennirnir sátu fyrir manninum og skutu einnig son mannsins til bana. Þá létust fimm bandarískir hermenn í morgun og tveir slösuðust í bílslysi norður af Bagdad en ekki hefur verið gefið upp hvað olli slysinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×