Viðskipti innlent

Skipta með sér þremur milljörðum

Hluthafar í KB banka skipta með sér rúmum þremur milljörðum króna í arð af hagnaði bankans í fyrra, sem nam hátt í sextán milljörðum króna eftir skatta. Það er meira en tvöfalt meiri hagnaður en árið áður og á rúmlega helmingur hagnaðarins rætur að rekja til starfsemi bankans í útlöndum. Bankinn tvöfaldaðist að stærð í fyrra vegna kaupa á danska bankanum FIH og innri vaxtar. Ef litið er á helstu afkomutölur þá nam hagnaður á hlut tæpum 32 krónum samanborið við 19,5 krónur í fyrra. Arðsemi eigin fjár var rösklega 22 prósent, eða álíka og í fyrra, hreinar rekstrartekjur voru rúmir 48 milljarðar sem er rúmlega 52 prósenta aukning frá árinu áður. Kostnaðarhlutfall lækkaði úr 58 prósentum niður í rúm 50, heildareignir námu 1500 milljörðum og jukust um 175 prósent á árinu. Þá hækkaði Moody´s-lánshæfismat bankans í fyrra úr flokki A2 upp í A1. Athygli vekur að þessi góða afkoma náðist þrátt fyrir að gengishagnaður í fyrra hafi verið mun minni en árið áður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×